Lög Þróttar Nes

Home/Um Þrótt/Lög Þróttar Nes
Lög Þróttar Nes 2016-06-09T22:08:49+00:00

Sækja lög sem PDF

 


Lög Íþróttafélagsins Þróttar

1. kafli
Nafn og tilgangur

1.
Félagið heitir Þróttur. Heimili þess og varnarþing er á Norðfirði í Fjarðabyggð

2.
Tilgangur félagsins er að efla, samræma og skipuleggja íþróttastarf á Norðfirði, svo og að styðja og taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi.

2. kafli
Inntökuskilyrði, réttindi og skyldur

3.
Rétt til inngöngu í félagið hafa allir sem samþykktir verða af aðalstjórn félagsins.

4.
Málfrelsi og tillögurétt hafa allir félagsmenn, en aðeins þeir sem náð hafa 14 ára aldri hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins.

5.
Skyldur félagsmanna eru:
a: Að hlýða lögum félagsins, fyrirskipunum og samþykktum.
b: Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.
c: Að greiða félagsgjöld sín á tilskyldum tíma.
6.
Félagsmaður hefur fyrirgert rétti sínum ef hann:
a: Brýtur lög félagsins eða samþykktir.
b: Vanrækir að greiða áskilin gjöld á réttum gjalddaga.

3. kafli

7.
Á meðan Þróttur er aðili að Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands ( U.Í.A. ), mega lög félagsins ekki brjóta í bága við lög U.Í.A., né þeirra landssambanda sem U.Í.A. er aðili að.

 

4. kafli
Aðalstjórn félagsins og störf hennar

8.
Aðalstjórn Þróttar skulu skipa: formaður, varaformaður, gjaldkeri og meðstjórnendur. Meðstjórnendur eru fulltrúar deilda félagsins. Formaður, varaformaður og gjaldkeri mynda framkvæmdaráð stjórnar.

9.
Formaður boðar til stjórnar- og félagsfunda og stjórnar þeim. Þó er honum heimilt að tilnefna sérstaka fundarstjóra. Formanni er skylt að boða til stjórnarfunda, ef meirihluti stjórnarmanna óskar þess, enda geti þeir fundarefnis. Formaður hefur eftirlit með starfsemi félagsins með aðstoð annarra stjórnarmeðlima. Fyrir öllum meiriháttar fjárútlátum þarf samþykki aðstjórnar og ekki er heimilt að setja félagið í skuldbindingar nema með samþykki aðalstjórnar.
Formaður félagsins má ekki gegna formennsku í neinni af deildum þess.

10.
Varaformaður aðstoðar formann í stjórnarstörfum og tekur sæti hans í forföllum.

11.
Varaformaður heldur gerðabók yfir stjórnarfundi og félagsfundi og hið helsta í starfi félagsins milli funda.
Framkvæmdaráð aðalstjórnar sér um félagatal og annast bréfaskriftir á vegum félagsins. Framkvæmdaráð skal annast vörslu allra heimilda sem tengjast félaginu, svo sem skýrslu stjórnar og deilda á aðalfundum, bréf sem félaginu berast og þess háttar.

12.
Gjaldkeri innheimtir félagsgjöld, greiðir og færir reikninga sem aðalstjórn berast.Gjaldkeri sér um öll viðskipti Þróttar við bæjarsjóð Fjarðabyggðar, sem og hið opinbera. Gjaldkeri sér um úthlutun á því fjármagni sem veitt er til hinna ýmsu deilda samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar. Gjaldkeri felur deildum innheimtu félagsgjalda, enda er það skilyrði fyrir styrkveitingu frá aðalstjórn að þær inni það verkefni af hendi.
Ef stjórnarmaður óskar upplýsinga um fjárhag félagsins, er gjaldkera skylt að gera grein fyrir honum. Reikningsár aðalstjórnar er almanaksárið.

13.
Meðstjórnandi aðstoðar aðra stjórnarmenn í störfum þeirra.

14.
Varamenn í aðalstjórn taka sæti þar ef einhver stjórnarmaður forfallast.

15.
Önnur störf aðalstjórnar eru:
a: Að framkvæma samþykktir félagsfunda
b: Að hafa yfirumsjón með starfsemi félagsins og samræma fjáröflunarleiðir deilda.
c: Að veita heiðursmerki félagsins eftir því sem nánar verður kveðið á í reglugerð.

 

5. kafli
Um fundahöld og fleira

16.
Aðalfundur félagsins skal haldinn við áramót eða eigi síðar en 31. mars næsta árs. Aðalfundur félagsins er æðsta vald í málefnum þess. Helstu störf aðafundar eru:
1. Skýrsla stjórnar
2. Skýrsla gjaldkera
3. Mál lögð fyrir aðalfund
4. Kosning aðalstjórnar
5. Ákvörðun félagsgjalda
6. Önnur mál.

17.
Á aðalfundi skal stjórnarkjöri hagað sem hér segir:
Fyrst skal kjósa formann sér, þá varaformann og gjaldkera á sama hátt og síðan tvo varamenn þessara þriggja. Ennfremur tilnefni hver deild fulltrúa sinn í aðalstjórn og varamann hans, skulu nöfn þeirra liggja fyrir á aðalfundi.
Komi fram tillögur um fleiri en kjósa þarf við stjórnarkjör, skulu atkvæðagreiðslur vera skriflegar.

18.
Á aðalfundi skal ákveða félagsgjöld fyrir næsta starfsár. Félagar 14 ára og eldri greiði fullt gjald, yngri félagar hálft gjald.

19.
Aðalfundur er lögmætur, hafi til hans verið boðað með viku fyrirvara. Aðrir félagsfundir eru löglegir , ef til þeirra hefur verið boðað með minnst sólarhrings fyrirvara. Í fundarboði skal getið þeirra mála er fyrir fundinum liggja. Á lögmætum fundum ræður afl atkvæða úrslitum. Til lagabreytinga þarf þó 2/3atkvæða atkvæðisbærra fundarmanna. Skylt er að kalla saman félagsfund ef meirihluti stjórnar eða þriðjungur atkvæðisbærra félagsmanna óskar þess.

 

6. kafli
Deildir Þróttar

20.
Deildir Þróttar eru:
Knattspyrnudeild
Skíðadeild
Blakdeild
Sunddeild
Frjálsíþróttadeild
Handknattleiksdeild
Tae-kvon-do deild
Aðalfundur Þróttar getur samþykkt fleiri deildir sé þess formlega farið á leit. Þarf 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna til þess að tillaga þess efnis nái fram að ganga.

21.
Aðalfundur hverrar deildar skal haldinn einu sinni á ári. Dagskrá og störf aðalfunda deilda skulu vera með sama hætti og aðalfundir félagsins. Aðalfundir deildar skulu fara fram eigi síðar en 15. mars ár hvert.

 

7. kafli
Starfssvið deilda

22.
Hver deild um sig hefur sjálfstæða stjórn, sem skipuð skal 3 mönnum, 5 eða mest 7.
Hver deild um sig hefur 3 kjörna embættismenn, formann, ritara og gjaldkera.

23.
Sérhver deild er ábyrg fyrir rekstri sínum. Hún ræður þjálfara, skipuleggur mótahald og þátttöku íþróttafólks síns í mótum og sér um öll útgjöld þar að lútandi. Sérhver deild skal semja fjárhagsáætlun, sem hún leggur fyrir aðalfund sinn, þar sem fram koma helstu tekju- og gjaldaliðir.

24.
Formaður hverrar deildar boðar til stjórnarfunda hennar og stjórnar þeim. Formaður hefur umsjón með öllum framkvæmdum og ákvörðunum á vegum deildarinnar með aðstoð stjórnarmeðlima.

25.
Ritari heldur gerðabók yfir stjórnarfundi og hið helsta í starfi deildarinnar milli funda.

26.
Gjaldkeri tekur við öllu því fé sem inn kemur vegna fjáraflana deildarinnar og sér um greiðslur reikninga vegna reksturs hennar.
Gjaldkera er skylt að færa dagbók yfir tekjur og útgjöld deildarinnar yfir starfsárið og flytja reikninga deildarinnar á aðalfundi hennar.
Gjaldkera er skylt að gera aðalstjórn grein fyrir fjárhag deildar sinnar, hvenær sem hún óskar þess. Ársreikningar hverrar deildar skulu sendir aðalstjórn til vörslu. Reikningsár hverrar deildar skal vera starfsárið.

 

8. kafli
Ýmis ákvæði

27.
Merki félagsins er skjöldur, sem sýnir sólaruppkomu við hafsbrún. Skulu litir félagsins vera samkvæmt því, en útlínur skjaldarins og nafnið Þróttur, sem er í boga fyrir aftan sólina skal vera svart.

28.
Ef félagið skyldi leysast upp eða hætta að starfa, skulu eignir þess felast Fjarðabyggð til varðveislu. Ber því stjórn þeirri er síðast var löglega kosin að afhenda bæjarstjórn allar eignir félagsins. Verði félagið hins vegar ekki endurstofnað innan 5 ára, renna þær til Fjarðabyggðar.

29.
Íþróttafélaginu Þrótti verður ekki slitið nema 4/5 atkvæðisbærra félaga sem aðalfund sitja séu því samþykkir. Með slíkri samþykkt er störfum þess lokið, en að 6 mánuðum liðnum skal sú stjórn er síðast sat boða til annars fundar. Sé þar aftur samþykkt með 4/5 atkvæða atkvæðisbærra félaga að slíta félaginu, skulu það teljast lögleg félagsslit.

30.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi lagabreytinga verið getið í auglýstri dagskrá. Að undangengnum umræðum þurfa 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna að greiða þeim atkvæði til þess að þær hljóti samþykki.

31.
Lög þessi öðlast gildi er þau hafa verið samþykkt á aðalfundi og staðfest af þeim samtökum sem Þróttur er aðili að.

 

Ritað í maí 1997
Eysteinn Þór Kristinsson
Lög breytt og samþykkt á aðalfundi 31.mars 2015.