Frábær Finnlandsferð að baki hjá 3.flokk

Home/Blak/Frábær Finnlandsferð að baki hjá 3.flokk

17 sprækir blakarar úr 3. flokki Þróttar Neskaupstað lögðu land undir fót og kepptu á Power Cup 2014 í Raahe í Finnlandi 4.-8. júní. Power Cup er stærsta blakmót barna og unglinga í heiminum og er haldið árlega í Finnlandi og er nýr staður valinn í hvert skipti sem gestgjafi. Hefð hefur myndast hjá Þrótti að senda 3.flokk á 2-3 ára fresti og hafa keppendurnir og fjölskyldur þeirra verið í fjáröflun síðastliðin þrjú ár. Í þetta sinn fóru frá Þrótti tvö lið, 10 stelpur og 7 strákar fædd 1997-1999. Í ár voru um 850 lið skráð til leiks á Power Cup, flest finnsk en þó einnig lið frá Rússlandi, Eistlandi og svo liðin tvö frá Íslandi. Keppt er úti á malar- og grasvöllum hefðbundið sex manna blak. Keppendur eru um 7000 á aldrinum 7-22 ára. Raahe, gestgjafinn í ár, er 25.000 manna hafnarbær sem liggur að botni flóans Helsingjabotns við vesturströnd Finnlands nálægt borginni Oulu. Fyrir fimm árum kepptu Þróttarar einmitt í Oulu en þá kom óvenjulegt kuldakast og snjóaði á keppendur. Í ár kom aftur á móti hitabylgja og kepptu krakkarnir í sól og allt að 30 gráðu hita. Mjög gott skipulag þarf til að láta mót af þessari stærðargráðu ganga upp en leikir eru um 5200 í heildina og eru það ekki síst 700 sjálfboðaliðum að þakka. Þróttaraliðin tvö kepptu 11 leiki hvort og þeim til halds og trausts voru, auk fararstjóra og þjálfara, finnskir feðgar sem voru sjálfboðaliðar sem höfðu það hlutverk að hugsa um Íslendingana. Finnar eru feiknasterkir blakarar og áttu íslensku liðin oftar en ekki við ofurefli að etja. Hinsvegar vakti gleði og jákvætt viðhorf Norðfirðinganna athygli og fjallað var um liðin í opnufrétt í bæjarblaði Raahebúa og viðtal tekið við Sæunni Skúladóttur þjálfara stelpnanna undir fyrirsögninni „Markmiðið er að hafa gaman“. Margrét Perla Kolka Leifsdóttir
Source: Blak feed

By | 2014-07-01T15:13:58+00:00 1. júl 2014|Blak|0 Comments

Leave A Comment